13/09/2023

XPS einangrun: Eiginleikar XPS einangrunar á viðsnúnum þökum.

Helstu eiginleikar XPS einangrunar á viðsnúnum þakkerfum útskýrðir í stuttri grein.
p19

XPS einangrun (extruded polystyrene insluation) er lang mest notaða einangrunin í viðsnúnum þakkerfum. Ástæðurnar fyrir því eru nokkrar. Sem dæmi má nefna mikið rakaþol, mikinn þrýstistyrk og góða einangrunareiginleika. Þessir þrír eiginleikar eru að sjálfsögðu mismunandi eftir framleiðendum og undirtegundum, en eru líklega þeir þrír kostir sem gera XPS einangrun vænlegasta kostinn fyrir viðsnúin þök.

Einangrunareiginleikar XPS einangrunar eru mjög góðir, en það ræðst af lágu lambda gildi (λ), og samsvarandi háu R gildi. Algengt er að sjá XPS einangrun með útgefnu lambda gildi (λD) á bilinu 0,033-0,036 W/(mK) og þá hönnunar lambda gildi (λU), sem notað er í U-gildis útreikninga, á bilinu 0,034-0,037 W/(mk). XPS einangrun er þó til með enn lægra lambda gildi, eins og til dæmis Ravatherm XPS X 300 SL með lambda gildi D) 0,031 W/(mK) og Ravatherm XPS X ULTRA 300 SL með lambda gildi D) 0,027 W/(mK). Algengt er að litið sé framhjá lambda gildinu og þykkt einangrunarinnar höfð í algjörum forgangi. Þetta er mjög algengur misskilningur, en raunin er sú að lambda gildi og þykkt skipta jafn miklu máli. Skoðum sambandið á milli lambda gildis og þykktar nánar.

Þegar varmamótstaða (R gildi) byggingarhluta er reiknuð út er eftirfarandi jafna notuð, R = d/λU , þar sem d er þykkt efnislagsins. Jafnan sýnir að R gildið treystir jafn mikið á þykktina og það treystir á lambda gildið, og gildir þar að því hærra sem R gildið er, því meiri er varmamótstaðan. Á töflunni hér fyrir neðan sést hvernig nauðsynleg einangrunarþykkt lækkar með lægra lambda gildi fyrir fyrirfram ákveðna kröfu um R gildi = 6,25.

R-gildi [m²K/W]6,256,256,25
Lambda gildi (λD), [W/mK]0,0360,0320,028
Þykkt (mm)225200175

Taflan sýnir að þegar einangrun með lambda 0,032 er notuð þarf u.þ.b. 11% minna magn af einangrun heldur en þegar einangrun með lambda gildi 0,036 er notuð. Þessi munur verður í kringum 22% þegar einangrun með lambda gildi 0,028 er notuð. Síðan þarf að skoða hvort notaður sé jarðvegsdúkur eða sér til gerður vatnsfleytidúkur (WFRL) ofan á einangrunina. Vatnsfleytidúkurinn hefur þau áhrif að regnvatn á mun auðveldara með að komast í niðurföllin án þess að snerta vatnsvarnarlagið nokkurn tímann. Þetta hefur gríðarleg áhrif á U-gildi þaksins, þar sem refsing vegna regnkælingar er lágmörkuð. Allt skiptir þetta máli þegar einangrunareiginleikar þaksins eru skoðaðir í heild sinni.

Þrýstistyrkur XPS einangrunar er gríðarlega mikil miðað við eiginþyngd efnisins. Algengast er að notast sé við XPS einangrun með 300 kPa þrýstistyrk. Einnig er til XPS einangrun með 500 og 700 kPa þrýstistyrk, en hún getur verið notuð á svæði þar sem búist er við álag frá þungum ökutækjum eða sambærilegum álagsvöldum. Annar mikilvægur þáttur í þrýstistyrk XPS einangrunar er að skoða langtíma formbreytingu vegna þrýstiálags (e. compressive creep) sem getur verið mjög mismunandi eftir XPS tegundum.

Brunaflokkar XPS einangrunar eru áhugaverðir og eins og með lambda gildið, oft hunsaðir. XPS einangrun er flokkuð samkvæmt svokölluðu Euroclass kerfi í Evrópustöðlunum. Flokkarnir eru sjö talsins og heita: A1, A2, B, C, D, E og F, þar sem A1 er eldtraust efni og F eru þau efni sem eru hvað mest eldfim. XPS einangrun er iðulega í flokkum E og F en það getur verið mikill munur þar á milli. Í Euroclass kerfinu er flokkur E skilgreindur sem „normal flammability“ en flokkur F er skilgreindur fyrir efni sem eru ekki prófuð eða stóðust ekki Euroclass E prófið. Því er erfitt að segja til um hvernig einangrun í Eruoclass F flokki svarar álagi elds. Okkar reynsla af henni er þó ekki góð og mælum við með því að skoða tækniblöð og umbúðir áður en haldið er áfram. Hinsvegar ber að nefna að viðsnúin þök eru skilgreind broof(t2) vottuð samkvæmt ýmsum stöðlum með því skilyrði að viðeigandi farg sé notað. Ravatherm XPS einangrun er blönduð með eldtefjandi efnum sem hindra íkveikju frá smáum eldgjöfum.

XPS einangrun er með virkilega gott rakaþol sem er gríðalega mikilvægt þegar kemur að einangrun í viðsnúnum þökum. Rakaþolið er í raun það sem útilokar aðra einangrunarkosti á viðsnúnum þökum. Alltaf verður einhver rakauppsöfnun í einangruninni og er hún munurinn á skilgreindu lambda gildi framleiðanda og hönnunar lambda gildi. Oft er hætta á því að XPS einangrunin liggi lengi í vatni sem kemst á milli hennar og vatnsvarnarlagsins. Þessu er hægt að komast hjá með því að nota drendúk á milli laganna. Þykkt drendúksins er lítil, um það bil 5 mm, svo engin áhrif verða á einangrunargildi þaksins og heldur hann föstu bili á milli vatnsvarnarlagsins og einangrunarinnar sem auðveldar regnvatni að komast áleiðis í niðurföllin.

Dagur Hrafn Pálsson, Þaktak, MSc. Byggingarverkfræði.

Deila þessari færslu:
Facebook
Twitter
LinkedIn
WhatsApp

Fleiri fréttir og greinar